Frú Eliza Jean Reid


Frú Eliza Jean Reid

Eliza Jean Reid forsetafrú fæddist árið 1976 í Ottawa í Kanada. Hún flutti til Íslands árið 2003. Eliza er með BA gráðu í alþjóðasamskiptum frá Trinity College, University of Toronto þar sem hún gegndi hlutverki Head of College á lokaári sínu. Hún lauk síðar meistaraprófi í sagnfræði frá St. Anthony’s College við Oxfordháskóla. Hún talar auk móðurmálsins frönsku og íslensku.

Ávarp

11 okt. 10:30 - 11:00

Frú Eliza er annar af stofnendum Iceland Writers Retreat, árlegs móts rithöfunda sem koma hingað til að vinna að skriftum í litlum vinnuhópum og kynna sér bókmenntir Íslendinga. Í þessu hlutverki hefur hún verið virk í að koma íslenskum rithöfundum á framfæri og kynna íslenskar bókmenntir erlendis, einkum í Norður Ameríku. Eliza var í dómnefnd fyrir BC National Award for Canadian Non-Fiction 2018 en það eru ein þekktustu bókmenntaverðlaun Kanada.

Eliza hefur starfað sem sjálfboðaliði í Kanada, á Bretlandi og Íslandi. Hún var sjálfboðaliði á sjúkrahúsi sem táningur og árið 1998 sá hún um stærsta sjálfboðaliðaverkefni Kanada við barnasjúkrahús í Toronto. Meðan hún hún bjó í Bretlandi vann hún einnig ýmis sjálfboðaliðastörf. Á Íslandi starfaði hún um tíma sem sjálfboðaliði fyrir Rauða krossinn á Landspítala-háskólasjúkrahúsi og hún var í foreldraráði á leikskóla. Eliza var formaður í samtökum enskumælenda á Íslandi (English-Speaking Union of Iceland, 2009-2013) en það er deild úr alþjóðlegum góðgerðasamtökum sem vinna að friði og velmegun; stofnun ESU á Íslandi var á sínum tíma næststærsta deildarstofnun á vegum samtakanna.
Eliza er verndari ýmissa samtaka á Íslandi, svo sem Félags Sameinuðu þjóðanna, og hún er velgjörðarsendiherra SOS barnaþorpa á Íslandi. Í september 2017 heimsótti hún Za’atari flóttamannabúðirnar í Jórdaníu í boði UN Women og hún er virkur stuðningsmaður baráttunnar fyrir kynjajafnrétti.